« Home | OMG » | Koddu pabbi! » | Hún á afmæli í dag.... » | Stelpudagarnir eru búnir! » | Snillingurinn minn!!! » | Habbakúk... » | Önnur skil -styttist í eðlilegt líf! » | Jæja, þá er búið að skila ritgerðinni. Það var nú ... » | Tímasetningar » | Hver kannast ekki við... » 

laugardagur, október 04, 2008 

Líf á síðunni!

Haldið þið ekki að maður hafi tíma til að blogga aðeins!
Ekki að það hafi mikið gerst hér á þessum bæ sem þykir fréttnæmt en það er kannske einmitt málið að gera sér bloggmat úr hversdagsleikanum!
Helstu fréttirnar eru náttúrlega þær að fröken Auður er komin með leikskólapláss frá og með næstu mánaðarmótum. Hún ætlar að verða leikskólabarn á Litla-Hjalla sem er rekinn af Hjallastefnunni. Ég fæ nú samt ekki betur séð en að hún fái að vera bara í sínum fötum þennan veturinn allavega. Meiningin er nú síðan að hún flytjist bara yfir á Hlíðarenda þar sem Camilla er til þess að maður þurfi nú ekki að vera endalaust á rúntinum um Hafnarfjörð svona í morgunsárið! Það eru bara engin laus pláss á Hlíðarenda í augnablikinu fyrir svona lítil skott eins og hana!

Húsbyggingin smá potast. Það er allavega komið þak og gluggar og bílskúrshurðin er á leiðinni. Hún var nú sem betur fer pöntuð áður en krónan tók rússíbanadýfu og allar innfluttar byggingavörur hækkuðu um bæði hægri handlegg og fótlegg!! Nóg er það nú samt...

Nú vinnan... tja... er bara vinna! IKEA vantar alltaf fólk þannig að við ráðum og ráðum mannskap... Ástandið er nú reyndar nokkuð gott í augnablikinu þannig að kannski verður hægt að fara að snúa sér að öðrum málum sem eru alltaf látin sitja á hakanum á meðan búðin er illa mönnuð!

Leikhús... Við fórum að sjá "Fló á skinni" í gær. Þetta var hin besta skemmtun og ég mæli bara með því við fólk að sjá þessa sýningu þeirra norðanmanna. Skemmtilega staðfærð og sérstaklega gaman að sjá Árna Tryggva á sviði. Ég held að ég hafi ekki séð hann síðan í "Dýrunum í Hálsaskógi" hérna um árið!

Á morgun ætlum við frænkur -föðurmegin- að hittast og spjalla um heima og geima yfir morgunverði á Htl. Sögu. Það er alltaf mikið fjör þegar við hittumst og mikið hlegið. Ég geri bara fastlega ráð fyrir því að eins verði í þetta sinn.
Síðar um daginn ætlum við síðan að fara í skírnarveislu hjá pabba og Gerði... Þau eru nú reyndar ekki að skíra neinn né láta skírast heldur fengu Hörður og Ingibjörg lánað húsið þeirra til að skíra litla Pétur þar. Eftir því sem mér skilst þá er nú búið að baka helling því ekki mega nú gestirnir vera svangir! Undirrituð ætlar að leggja til tvær kökur en það er nú bara svona til að geta borðað meira með betri samvisku!

Jæja... læt þetta duga þar til næst!

| |

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Previous posts

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com