Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur!!
Ég er nú yfirleitt frekar róleg yfir hlutunum en það fór nú samt um mig þegar Beggulíus hringdi í mig klukkan ríflega 11:30 og tilkynnti mér að Ella Maja svaraði ekki gemsanum sínum og það hringdi út heima hjá þeim David! Ég hafði svo sem ekki miklar áhyggjur af því að heimili þeirra hefði verið vettvangur hræðilegs glæps, nei... mínar stærstu áhyggjur voru á þá leið að Ella Maja hefði í alvöru gleymt því að Begga hefði ætlað að koma og "elda" fyrir hana og David! Bæði hefði það þýtt að allt skipulag dagsins væri farið út um þúfur en ekki síður skelfdi það mig að Ella Maja hefði GLEYMT einhverju sem var löngu skipulagt!!! Ella Maja gleymir nefnileg heilt yfir ekki hlutum! Svo mikið veit ég sem lifði á hennar minni út allan gagnfræðaskólann og góðan hluta af framhaldsskólagöngu minni! (Það var ekki fyrr en hún fór sem skiptinemi að ég fór að leggja á minnið hvar skólataskan mín var og hvað var að læra í hinu og þessu faginu!!)
Nema hvað... Ástæðan fyrir panikinu var jú sú að við stöllur ætluðum að gæsa dömuna sem er jú að fara að gifta sig, þennan sama dag!
Sem betur fer reyndist nú óttinn ástæðulaus, bæði hvað varðar skipulagið og ekki síður minni Ellu Maju! Hún og eiginmannsefnið höfðu bara brugðið sér af bæ rétt sem snöggvast og komu heim nægilega snemma til að planið félli ekki um sjálft sig.
Daman var send í snyrtingu, frá toppi til táar, má segja (förðun og fótsnyrtingu), var keyrt um bæinn með bílstjóra sem hún vissi ekki nein deili á, fór í magadans og sýndi bara heilmikla takta. Eftir dálítinn bíltúr var haldið heim til Lady-innar þar sem skálað var í kampavíni með jarðaberjum og nokkrir ostar hurfu ofan í svangar skvísur, á meðan skipt var um föt fyrir kvöldið. Að afloknum ljómandi góðum kvöldverði á veitingastaðnum Madonnu fór tæpur helmingur hópsins heim (bumbulínur og fleiri) en mér skilst að spræki hlutinn hafi skemmt sér stórvel á NASA þar sem ókrýndur konungur Júróvisjón hafi mætt með rauðan makkann, hrist hann vel og lengi og hlotið koss og knús gæsarinnar Ellu Maju að launum. Ekki amalegt það!!
Nú, af óléttunni er það að frétta að ég stend í samningaviðræðum við erfingjann um að mæta snemma í heiminn til að hlífa mömmu sinni við frekari óþægindum í mjaðmagrindinni! Mér hefur borist liðsauki í ljósmóðurinni minni sem ætlar að senda mig í "belgjalosun" í næstu viku! Það er gert til að koma í veg fyrir að leigutíminn verði lengri en 40 vikur. Henni þykir nóg um verki, svefnleysi og almenna vanlíðan sem erfinginn veldur mömmunni. Þannig að nú bíð ég bara og vona að samningar náist sem fyrst!! Móttökunefndin er alveg tilbúin og öllum undirbúningi er lokið þannig að nú þarf litla krílið bara að láta sjá sig!
Camilla litla, sem gerir sér enga grein fyrir því að hún er að verða stórasystir, bendir orðið oft á dag á mömmu sína og segir sposk "bumba". Hún er búin að taka vögguna í sátt og finnst hún ekkert spennandi lengur! Það er spurning hvort hún verði meira spennandi þegar hið margumrædda "litla barn" verður komið í vögguna.
Annars er heimilisfólkið hér ákaflega ánægt með þá staðreynd að nú hefur orðið "JÁ" bæst í orðaforðann, sem er ánægjuleg tilbreyting frá "NEI" í öllum myndum, tóntegundum og ekki síst tónhæðum!
Ég held að þetta séu nú svona helstu fréttir héðan af Völlunum, svona í bili!