föstudagur, október 29, 2004 

Bíddu nú við!!!

Nohh... maður er bara mættur í vinnuna!
Sáttasemjari búinn að setja fram miðlunartillögu og þar með á maður bara að mæta aftur í vinnuna. Það er mjög jákvætt. En... það er samt dálítið skrítið vegna þess að nú vitum við ekkert út á hvað við erum komin aftur í vinnuna. Við vitum ekkert hvað það er sem við eigum von á í launaumslagið eða í vinnurammann! Ekki nóg með það heldur vitum við ekkert hvort við erum komin í vinnuna til að halda áfram í vinnunni eða hvort þetta er bara smávægilegt hlé á verkfallinu... Málið er að nú fáum við kennarar málamilunartillögu sáttasemjara í hendurnar, annað hvort í dag eða á mánudag, kynnum okkur hana og svo eigum við að greiða atkvæði um hana í komandi viku. -EF- málamilunartillagan verður felld... nú þá höldum við bara áfram í verkfalli!! Og þá mitt kæra fólk verður fyrst allt í steik!! Þannig að það er skrítið að vera komin í vinnuna undir þessum formerkjum....

miðvikudagur, október 27, 2004 

Helgin og enn meira verkfall...arrrrrrrgg....

Búin að fara í sumarbústaðaferð með krökkunum... Alveg ljómandi skemmtileg ferð þar sem var setið í pottinum, farið upp á Langjökul, legið í pottinum, borðaður góður matur, troðið 8 manns (9 ef huldumaðurinn sem sat í tröppunni er talinn með!) í pottinn, spilað og sungið, farið aftur í pottinn og svo var líka drukkið þó nokkuð magn af áfengi...-í pottinum!!!

Nú, svo kom mánudagur og þá hélt ég áfram að vera í verkfalli.. það er mikið starf get ég sagt ykkur!! Ég sef allt of lengi, vakna, les aðeins, dotta aftur, vakna aftur og ákveð að fara á fætur, hugsa um það í smá tíma, sef aðeins á ákvörðuninni, fer svo á fætur, fer inn í stofu, les textavarpið fram og til baka í þeirri von að þegar ég kemst aftur á síðu 107 og 108 þá verði búið að setja þar inn frétt af nýjum kjarasamningi kennara!! Nú, þegar ég er orðin úrkula vonar um að það gerist og ca 3-4 alþingismenn eru búnir að veita andsvar við framsögu e-s annars þingmanns þá finnst mér þetta ekkert gaman lengur þannig að ég fer inn í eldhús og athuga hvort svo undarlega vilji til að mér finnist eitthvað af því sem er til í ísskápnum nægilega spennandi til að búa til gómsætan og girnilegan morgun..*hósthádegishóst*..mat! Það endar í 95% tilfella með því að ég borða eins og eina skyrdós!! Nú... þá er komið að mikilvægustu ákvarðanatöku dagsins... Hvort ætti ég nú að fara í verkfallsmiðstöðina eða í Byko? Yfirleitt er svo langt liðið á daginn að ég ákveð að fara heldur í verkfallsmiðstöðina á undan Byko... Þar hittir maður einn og einn kennara sem maður þekkir.. stundum marga og stundum eiginlega engan! Þá er best að fara bara í Byko, nú eða aðra álíka búð, Egil Árnason t.d. og skoða flísar, klósett, vaska og eldhúsinnréttingar!! Svo þegar klukkan er orðin ca. sex.. þá fer ég heim, les textavarpið aftur og bíð spennt eftir að fréttirnar á Stöð 2 byrji til að segja mér frá öllu sem ég var að lesa á textavarpinu... OG... svo þegar þær eru búnar... þá flýti ég mér að skipta yfir á RUV þar sem ég fæ annan skammt af fréttum!! Kastljósið er stundum líka innbyrgt en yfirleitt fara nú kvöldin í þá hámenningarlegu athöfn að horfa á þættina á Skjá einum...
Þannig að þið sjáið að það er fullt starf að vera í verkfalli!!!

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com