mánudagur, júlí 04, 2005 

Ný stefna!!!

Ég fór að skoða listann yfir meinta bloggara hér til hliðar og sá að þar hafa ýmsir ekki bloggað svo mánuðum skiptir. Þannig að ég tók mig til og stytti listann eilítið! Ég sé enga ástæðu að hafa fólk hér til hliðar sem aldrei skrifar staf!
Þeir sem fuku af listanum eru eftirfarandi:
Ari frændi -sem hefur væntanlega verið úti að keyra eftir að hann tilkynnti það á blogginu sínu að hann hefði náð bílprófinu!
Einar Mar -sem hefur ekkert skrifað síðan í október!
Hörður bróðir -sem hefur ekki haft neitt að segja síðan hann fór á BB King tónleika 30. maí 2004!
Ingibjörg mágkona -sem er enn að jafna sig á því að Hörður bróðir skuli vera orðinn 25 ára!
Það er aldrei að vita nema þetta fólk fái aftur inni á listanum ef það tekur upp á því að skrifa eitthvað skemmtilegt!

sunnudagur, júlí 03, 2005 

Fyrsta helgin í júlí!

Jæja, þá er önnur mesta ferðahelgi þessa árs liðin og ég get ekki sagt að ég hafi farið í ferðalag!
Meiningin var nú reyndar að leggja bæði land og lög undir fót og eyða helginni úti í Flatey á Breiðafirði. Þar ætlaði stórfjölskyldan mömmu megin að koma saman og eiga góðar stundir við fótbolta, söng og leik. Reyndar gerði stórfjölskyldan það en ég sat sem sagt heima. Ástæðan er nýfundin skynsemi sem lét sjá sig í síðustu viku!! Skynsemi þessi gerði það að verkum að ég sá fram á að Flatey væri kannski ekki besti staðurinn sem ég gæti verið á ef væntanlegur erfingi ákvæði að láta sjá sig með skömmum fyrirvara!
Þrátt fyrir að skynsemin hafi dúkkað upp snemma í vikunni þá var nú reynt að bæla hana niður eins lengi og hægt var með alls kyns fortölum á borð við að það væri nú ekki nema klukkutíma sigling til Stykkishólms ef eitthvað færi af stað og þar væri nú sjúkrahús -m.a.s. með nunnum sem gætu þá beðið fyrir mér!! En eftir að doktorinn í fjölskyldunni var búin að gera mér grein fyrir að þar væri ENGIN aðstaða fyrir fæðingar þá ákvað ég að láta í minnipokann fyrir skynseminni. Og hið merkilega gerðist að allt í einu voru allir á sama máli og skynsemin! Það hafði bara enginn þorað að segja eitt eða neitt við óléttu konuna sem var svona ákveðin í að leggjast í ferðalag!! Ein frænka mín hafði það m.a.s. að orði að hún væri nú voðalega fegin að ég skyldi ekki ætla að leggja það á fjölskylduna að eiga það á hættu að taka á móti erfingjanum! Henni fannst víst nóg um að hafa farið á framhaldsnámskeið í skyndihjálp þar sem kennt var að taka á móti börnum. Hún vill bara kunna kenninguna en vill sem sagt ekki svona "hands on experience"!!!! Skrýtið!!!
Þannig að í staðin fyrir að fara út í Flatey fórum við Jón Einar í bíó og sáum War of the worlds á föstudaginn (sem kom bara nokkuð skemmtilega á óvart!), áttum rólegheitadag á laugardag þar sem við kíktum í kaffi til Hrannar ömmu og skruppum svo austur fyrir fjall á sunnudeginum. Þannig að í heildina var þetta bara alveg ljómandi fín helgi!

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com