sunnudagur, janúar 04, 2004 

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

og þrátt fyrir að hafa nú þegar bloggað einu sinni á þessu ári þá hef ég ákveðið að láta það verða mitt fyrsta verk að skrifa hér upp vísurnar eftir Bólu-Hjálmar sem Hörður barn skoraði á mig að skrifa hér öðrum til yndisauka!!!

Þessar vísur þarfnast smávægilegra útskýringa:
Bólu-Hjálmar orti erfikvæði um látna eiginkonu sína sem hann nefndi 'Ekkilsgælu'. Í þessu kvæði notar Bólu-Hjálmar viðlögin 'Gröfin skilur okkur að' og 'Senn er fengin sú ég lengi þráði' Nú vill ekki betur en svo að einhver leirbullari (svo notuð séu orð Bólu-Hjálmars sjálfs) semur eina stöku þar sem hann notar einmitt þessar setningar Bólu-Hjálmars.
Stakan er þessi:

Éttu það sem úti frýs
Langt fyrir utan Paradís,
það eru bæði maðkar og mýs,
mannaskítur og hrossatað.
Gröfin skilur okkur að.
Nú er tíkin full og feit
sem Friðrik lengi spáði.
Senn er fengin sú ég lengi þráði.


Við þetta reiðist Bólu-Hjálmar all verulega og í bræði sinni skrifar hann ekki bara eina stöku sem svar við þessari... Ónei.. hann skrifar heilan ljóðabálk!! -Takið eftir því hvernig hann skírskotar í stöku 'leirbullarans'

Hórgetningsins hróðrar tað
hreytist út um kríkastað,
andskotinn í afrak það
ódyggðunum sáði.
Orðaþjófsins yriki bað
upp sig láta hengt á blað,
því gröfin skilur aldrei að
óþokkann frá láði.

Hver þér leyfði, loddarinn,
að láta ekkils hróður minn
saman líma saurinn þinn
með svívirðing og háði?
Sálar eigið tyggðu tað
tíu sinnum uppkokkað,
í þér stikni og úldni það
ofar og neðar láði.

Sú mun tíkin full og feit,
sem fúlmennskunni í þig skeit
og svo þig í endann beit
að þið skræktuð bæði.
Þinn og hennar klínist krans
kopps á botni andskotans.
Nöldraðu svo í nafni hans
náhljóðs hinstu kvæði.

Tíkna vífni tarfurinn,
tönnlaðu nú lortinn þinn
þó ekki sé hann eingetinn,
annar fyrir þig sáði.
Loks þá hefur lenda tað
lapið, sleikt og fulljórtrað,
gröf þig skilji og örlög að
frá æru og sómaráði.

Hangi skömm við hár þitt hvert,
hrakmennið sé opinbert
og þekkist æ af stífðum stert,
sem stelvís sálin táði.
Í satans nafni bragar blað
breiðist á þinn hjartastað,
sé þín andláts signing það:
Svei þér og þínu ráði.

Hrópi allt, sem hrinið fær,
háðung þína fjær og nær,
um þig steypist ofan í tær
ódyggðanna kláði.
Klínist þér um lend og lær
leðjan smánar tímabær.
Goldið er í klaufa klær
kaupið þínu háði.


Sem sagt... ekki reita Bólu-Hjálmar til reiði!!

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com