föstudagur, apríl 04, 2003 

Merkileg veðráttan hérna á Íslandi! Á mánudaginn vaknaði ég sæl og glöð (jæja þá... ég vaknaði allavega) og vann mína vinnu eins og lög gera ráð fyrir. Nú þar sem ég var búin að sætta mig við þá staðreynd að það yrði enginn vetur þetta árið og var svona við það að fyrirgefa Ólafsfirðingum snjóleysið, var ég bara nokkuð sæl með þá staðreynd að nú væri grasið bara farið að grænka og komið vor í loftið... Þannig á mánudag fór ég sem sagt í göngutúr og af því að íslensk veðrátta og ég eigum greinilega eitthvað vantalað þá fór nú að snjóa þegar ég var nýlögð af stað í minn göngutúr!! Nú, það var svo sem í lagi þar sem það var jú "bara" lok mars á mánudag!! Á miðvikudag ákvað ég svo aftur að vera bara nokkuð aktív og fór í sund þar sem það var eiginlega ekki alveg nógu vænlegt að fara í mikið fjallabrölt.... Það er ekki að spyrja að því að þann daginn hvarf allur snjórinn sem kom á mánudag! Þannig að nú hugsaði ég mér nú gott til glóðarinnar um að þetta smá uppþot sem var í veðrinu á mánudeginum væri bara búið og nú kæmi vorið fyrir alvöru!!! Ónei, ég held nú ekki... Þegar þetta er skrifað þá er kominn föstudagur alhvít jörð úti!!! Sko.. ég veit að hitastig er breytilegt frá ári til árs en það tekur nú steininn úr þegar það er ekki einu sinni snjór á Ólafsfirði!!! Komm on... Ég keypti mér t.o.m. jeppa vegna þess að mér var tjáð það að ég hlyti að vera band brjáluð að vera að flytjast á hjara veraldar... hér væri ekki minni snjór en á Suðurskautslandinu!!! (Bara aðeins hlýrra!!)
Reyndar er þessi grunur minn um "samskiptavandamálin" milli mín og íslenskrar veðráttu ekki eingöngu byggður á þessum eina vetri hérna! Ónei... ég hef 4 sinnum verið búsett úti á landi svo mánuðum skipti. Og hver landshluti hefur sína sérstöðu ekki satt?
Austurlandið er jú rómað fyrir hlý sumur og mikla veðursæld! Persónulega held ég að þetta ágæta fólk sem þar býr hljóti að vera að ljúga! Ég er búin að vera 2 sumur á austurlandinu og þau voru bæði afskaplega köld, fyrra sumarið var ég á Reyðarfirði og þá snjóaði niður í miðjar hlíðar allt sumarið og hið seinna var ég á Egilsstöðum og þá fór hitinn EINU sinni upp fyrir 10°C!!! Nú, veturinn 1999-2000 var ég búsett á Kirkjubæjarklaustri. Þegar ég forvitnaðist hjá þeim sem unnu með mér hvort ekki væri sniðug hugmynd að taka með sér gönguskíði var mér tjáð að það þýddi nú lítið þar sem snjó festi aldrei þar. Það snjóaði yfir nóttina og um hádegisbilið væri það búið að taka sig upp aftur. Nú, til að gera langa sögu stutta þá er frá því að segja að 4 sinnum mátti draga mig og minn bíl þar sem við höfðum fest okkur í skafli! Nokkra daga í röð kom ég bílnum ekki út af bílastæðinu hjá mér vegna snjóþyngsla OG ég sá ekki út um svefnherbergisgluggann minn í 3 MÁNUÐI vegna þess að það var skafl við endann á húsinu sem náði upp undir rjáfur!!! Og svo þegar ég geri tilraun til að búa á einum snjóþyngsta stað Íslands þá kemur varla snjókorn úr lofti!!! Hvað er í gangi eiginlega!!!!!

mánudagur, mars 31, 2003 

Dagurinn í dag var afskaplega góður dagur þrátt fyrir að vera mánudagur með heila vinnuviku framundan!!
Eftir að vinnudegi lauk kom ég heim og fékk kærkomið símtal frá aðstoðarskólastjóra við skóla í bænum sem ég er búin að setja mig í samband við. Sá var að spyrja mig hvort ekki væri möguleiki á því að við gætum hist til að fara yfir stöðu mála hjá þeim og sjá hvort við gætum ekki komist að einhverju samkomulagi varðandi kennslu næsta vetur... Og það verður að segjast að þetta kom sérstaklega ánægjulega á óvart þar sem þetta er annar af tveimur skólum á höfuðborgarsvæðinu sem ég er mjög spennt fyrir... Þessi ágæti skóli er nefnilega þekktur fyrir að vera með mjög metnaðarfullt skólastarf, góðan aga og gott félagslíf fyrir nemendur. Og hvað heitir svo þessi ágæta menntastofnun? Hér er sem sagt verið að ræða um gagnfræðaskólann í Garðabæ sem heitir Garðaskóli!!!!! Og sá sem hringdi kæru vinir var hvorki meira né minna en Þröstur aðstoðarskólastjóri... (Jamm...hinn eini sanni Smjörvi!!!) Gunnlaugur gamli skólastjóri er hættur þar og annar tekinn við stýrinu í brúnni. Það er maður sem er ekki af verri endanum og ég og vinkonur mínar þekkjum líka, Ragnar Gíslason... (Þetta er farið að vera eins og kynning á handboltaliði hérna!!!) Þannig að maður er kannski bara kominn í hring!! Búin að vera nemandi í öllum skólum í Garðabæ... og nú kannski að fara að kenna í einum þeirra...!!

Svo geri ég mér háar vonir um að vera komin í gírinn fyrir sumarið. Ég fór í göngutúr hér um helgina við annan mann og fann þá mér til skelfingar að ég var fullkomlega búin að tapa öllu sem heitir úthald og líkamlegt form!! Það er afskaplega slæmt þar sem meiningin er nú að vera dugleg í sumar við það að príla upp og niður fjöll og hinar ýmsu gönguleiðir bæði með erlenda ferðamenn sem og í einkaerindum. Það er ekki það að þetta ástand hafi komið neitt á óvart þar sem ég hef nú ekki verið sú duglegasta við hreyfinguna í vetur, leiðin í skólann er aaaafskaplega stutt og enganvegin nægjanleg til þess að halda einum eða neinum í formi þar sem hún er fullkomlega flöt. Mesta landfæðilega hækkun og lækkun er upp og niður af gangstéttinni!! Og þar sem mér leiðast íþróttamiðstöðvar alveg ósegjanlega mikið þá hefur framkvæmdasemin hvað varðar hreyfinguna ekki verið mikil.... EN..í dag tók ég ákvörðun um að segja stopp og gera eitthvað í málinu til að hreinlega andast ekki úr hreyfingarleysi... Og hvað er það sem mér þykir skemmtilegt að gera sem inniheldur hreyfingu? Jú, mér þykir afskaplega skemmtilegt að vera úti í náttúrunni og tölta mér upp á fjöll... Þannig að það varð úr að ég kom heim hitaði hér vatn, smurði mér nesti og dró fram gönguskóna sem greyin depluðu augunum og skildu ekkert í eigandanum að vera að draga þá út svona á miðjum vetri, og prílaði hér upp fjall sem heitir Garðshyrna. Ég veit svo sem ekki hvað það er hátt en í öllu falli þá var það afskaplega hressandi og það helltist yfir mig notalegheita tilfinning þar sem ég sat uppi og var að hella heitu vatni í bollann minn í snjókomu og takmörkuðu skyggni... Þvílík forréttindi að hafa aðgang að jafn fallegri náttúru og finnst hér á Íslandi. Ég hef nú svo sem sagt það áður....
Hvað er betra en að vera á fjöllum?????

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com