Gærdagurinn var fullkominn í alla staði!
Ég fór ásamt Guðrúnu samkennara mínum í dagsferð út á Snæfellsnes. Það var vægast sagt dásamlegt. Þetta ferðalag er búið að standa til í allan vetur þar sem Guðrún hafði ekki komið þarna áður.
Við tókum daginn snemma og vorum lagðar af stað fyrir kl. 9 í gærmorgun. Brunuðum í Borgarnes og versluðum okkur nesti fyrir daginn áður en við héldum lengra.
Fyrsta alvöru stoppið var við Rauðamelsölkeldu þar sem vatnið bullaði af miklum móð. Samferpakona mín missti næstum andlitið þegar hún saup á vatninu... "Þetta er sódavatn!!!!"
Næsta stopp var svo aftur á Búðum þar sem við gerðum stuttan stans og skoðuðum kirkjuna. Héldum svo áfram í áttina að
Arnarstapa með viðkomu í
Sönghelli (kíktum þar inn og tókum að sjálfsögðu lagið). á
Arnarstapa töltum við um og kíktum á allar fallegu
hraunmyndanirnar sem eru í klettunum þar. Það var svo gott veður þarna að undirrituð fór úr windstopper fleecepeysunni og lét ullarbolinn nægja!!
Nú eftir að hafa kvatt
Arnarstapa héldum við á
Hellnar, vöfruðum þar um í örskotstund áður en haldið var á
Djúpalónssand ar sem við reyndum við steinatökin, komumst að því að við erum alveg hrrrrikalega sterkar!!! Næsti klukkutíminn fór í það að leika sér í steinaleik, tína steina og njóta þess að vera til.
Frá
Djúpalónssandi var meiningnin að fara út á Öndverðarnes og kíkja á klettana þar en áður en við komumst svo langt sáum við svo dásamlega freistandi fjöru að við máttum til með að stöðva bifreiðina og labba um hana. Þar sem klettarnir í kringum þá strönd voru svipaðir þeim sem eru úti á Öndverðarnesi ákváðum við að líta frekar á aðra hluta nessins.
Við tókum all ítarlegan bæjarrúnt á
Hellissandi og Rifi áður en við keyrðum niður í fjöru og borðuðum nestið sem hafði verið keypt í Borgarnesi fyrr um daginn. Drukkum heitt kakó og borðuðum dýrindis brauð. Útsýnið þarna var alveg stórkostlegt, heiður himinn, spegilsléttur sjór, nokkrir bátar og öll Barðaströndin eins og hún lagði sig!!
Nú, eftir að hafa sporðrennt borgnesku kræsingunum skoðuðum við Ólafsvík og Grundarfjörð áður en við keyrðum til
Stykkishólms. Þar stukkum við upp í
höfðann niðri við bryggju og kiktum á þær eyjur á Breiðafirðinum sem við sáum. Svo brynntum við Grána, komum við og týndum hörpudiskskeljar áður en við héldum í áttina til Reykjavíkur. Strauið var nú ekki tekið beint þangað því að einn samkennari okkar var í sumarbústað í
Skorradal og var sú búin að bjóða okkur í kvöldmat. Það var tekið að halla á síðari hluta dagsbirtunnar þegar við vorum að keyra suður Mýrarnar og birtan á himninum var mjög falleg, ljósbleik ský í sambland við ljósfjólubláan himinn!
Eftir að hafa sporðrennt kvöldmatnum hjá Brynhildi og spjallað smá var kominn tími til að koma okkur í bæinn. Þangað komum við um kl. 22:30 sælar og rjóðar eftir vægast sagt yndislegan dag.