fimmtudagur, september 17, 2009 

Hólí mólí!

Ja hérna hér!!
Ég held nú að þetta sé lengsta blogghlé sem ég hef tekið mér! En.. það hefur sem sagt verið svolítið mikið að gera hjá mér þessa síðustu mánuði!
Bæði hef ég ákveðið að taka mér tak og fara að hreyfa mig aðeins! Nú hleyp ég -eins og vindurinn auðvitað- ca. 3 í viku og boxa ca. 3 í viku líka þannig að ég er alveg að fara að breytast í heilsugyðju! Það myndi sjálfsagt ganga hraðar ef ég nennti að taka mataræðið alvarlega í gegn líka en ég nenni því bara ekki!!
En svona að öllu gamni slepptu þá gengur þetta bara vel. Ég hljóp til og með 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Var sátt við tímann sem ég hljóp það á svona miðað við líkamlegt form og fyrri afrek á hlaupabrautinni -sem eru engin!!!

Nú, litla fólkið dafnar vel, stækkar og þyngist eftir náttúrunnar lögmálum og er alveg í kúrfu... þið sem eigið börn skiljið þetta -og þið sem eigið ekki börn skiljið það seinna, þegar þið eigið börn!
Annars fengum við "gest" hér um daginn! Camilla kom heim með hlaupabóluna þannig að síðan hafa allir ungarnir fengið hana! En...hún er nú á undanhaldi þessa dagana þannig að mannskapurinn verður orðinn hress og kátur hér eftir nokkra daga :)

Annars hefur sumarið bara verið nokkuð ljúft. Við gerðum í sjálfu sér ekki mikið nema fara austur í bústað öðru hvoru og leyfa Camillu og Auði að njóta frelsisins sem þar er... engir bílar og lítið um boð og bönn þegar maður er úti að leika í sveitinni :)

Þangað til næst...bið ykkur vel að lifa!

sunnudagur, maí 10, 2009 

Rannveig og Hrönn

Jamm... litlu skutlurnar mínar eru komnar með nöfn. Við ákváðum að skíra í höfuðið á tveimur heiðurskonum sem heita Rannveig og Hrönn. Hrannar nafnið kannast nú flestir sem þekkja mig við, enda heitir stóra systir mín Hrönn. Það vita það kannski færri að bróðir hans Jóns Einars heitir Hrannar að seinna nafni. Hrönn litla er því skírð í höfuðið á honum líka. Rannveigar nafnið er síðan sótt til mikils fjölskylduvinar fjölskyldu Jóns Einars. Sú Rannveig hefur reynst þeim afar vel í gegnum árin og á milli heimilanna hefur ríkt djúp og mikil vinátta. Það má næstum segja að þar hafi þeir bræður (Jón Einar og Gísli Hrannar) átt aukasett af foreldrum. Það er óskandi að litlu skvísurnar mínar beri nöfn þessara heiðurskvenna vel og verði þeim til sóma!

mánudagur, apríl 27, 2009 

Litlu píurnar mættar

...og er náttúrlega bara fallegastar og í alla staði til fyrirmyndar. Ég var að spá í að setja inn mynd af þeim hérna en hef eiginlega ákveðið að fólk verður bara að koma að heimsækja okkur til að fá að sjá þær!

sunnudagur, mars 29, 2009 

300309-???0

Jæja.. þetta er hluti af kennitölum barnanna sem -miðað við "ekkert að gerast" ástandið á mér- verða þvinguð í heiminn með gangsetningu á morgun! Óskaplega verð ég fegin... bæði hlakka ég alveg óskaplega mikið til að fá litlu krílin mín í hendurnar en ég hlakka líka til að hætta að vera ólétt! Ég er búin að fá nóg af grindarveseni, brjóstsviða og fleiri óléttu-tengdum vandamálum!!

En auðvitað eru litlu krílin aðal málið og það er nú alveg búið að vera þess virði að bíða fram undir 38. viku eftir þeim vitandi að með hverjum deginum sem líður verða þau stærri og sterkari og betur undir það búin að takast á við heiminn :)

miðvikudagur, mars 25, 2009 

Jæja...

Það er vonandi komið að því!
Ég á pantað viðtal við fæðingarlækni á morgun sem vonandi sér aumur á mér og kippir mér inn á föstudag til að drífa liðið í heiminn...

þriðjudagur, mars 03, 2009 

Heimsending á börnum

Sko til... nú er kominn snjór aftur.
Þar af leiðandi er ég aftur komin í áskrift að börnunum mínum! Áskriftin virkar þannig að ég keyri þær á leikskólann, hringi og þá kemur einhver og nær í börnin mín út í bíl! Hið sama gerist þegar ég ætla að ná í þær, þá keyri ég að leikskólunum, hringi og mér eru færðar þær út í bílinn!!
Stórsniðugt kerfi -sem ég geri reyndar ráð fyrir að detti upp fyrir þegar ég verð búin að gjóta börnunum sem ég geng með!

laugardagur, febrúar 21, 2009 

Mamma "Bíndís

Auður er búin að læra það að mamma heitir Bryndís eða "Bíndís" í hennar útgáfu! Það gengur erfiðar að koma barninu í skilning um að pabbi heiti Jón en ekki "ljón"!! Hún tilkynnir okkur með reglulegu millibili að við séum "mamma Bíndís" og "pabbi njón" en "njón" er einmitt ljón á "auðísku".

Gaman að þessum litlu atriðum í lífinu.

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com