« Home | Leiðindi dauðans... » | Mömmumont » | Ég er hætt að gera grín að Ameríkönum! » | Smá uppdate! » | Ha ha!!! » | Merkilegt! » | Menningarnótt » | Leikskólablogg » | Sumarblogg » | Bloggleti á fleiri stöðum! » 

fimmtudagur, janúar 31, 2008 

Jólin, nýja árið og litla Camilludýrið!!

Jæja... er ekki kominn tími á að blogga aðeins!

Tökum þetta í réttri röð!

Jólin:
Jólin þetta árið voru bara alveg ljómandi fín. Ég ætlaði að vera bara lata húsmóðirin og baka tvær sortir af smákökum úr deigi sem Jói Fel var svo ægilega sætur í sér að blanda, hnoða og búa til lengjur sem þurfti bara að skera niður í skífur. (Ég reyndar bý alltaf til kúlur, smákökur verða alltaf fallegri þannig.) Þar sem ég var að búa til kúlur úr deiginu hans Jóa Fel fann ég hvað mér fannst þetta gaman að ég bætti um betur og hnoðaði í þrjár "alvöru" tegundir! Síðan var ég líka ákveðin að búa til sæmilega hollt konfekt og gerði nokkrar útgáfur af því líka. Ekki nóg með það heldur splæsti húsfreyjan í jólagardínur til að gera huggó stemningu í eldhúsinu! Það kallaði náttúrlega á þrif á eldhúsglugganum og fyrst maður var byrjaður þá var nú alveg hægt að þrífa alla gluggana. Þau þrif undu náttúrlega bara upp á sig þannig að að lokum var búið að þrífa alla íbúðina hátt og lágt! Þannig að myndarlegheitin voru bara nokkur fyrir þessi jólin á heimilinu.
Þetta árið tókst okkur að kaupa tiltölulega lítið jólatré, ekki mikið yfir stærðarmörkunum sem við vorum búin að gefa okkur. Jólaskrautið tók mið af því, eins og í fyrra, að lágmarka yfirvofandi skaða sem hlytist af ef tréð yrði togað eða hrint um koll, bæði á börnum og tréi! Jólaskrautið sem fór á tréð samanstóð sem sagt af slaufum og pökkunum sem maður getur keypt í IKEA!

Áramótin:
Voru bæði alveg glötuð og skemmtileg!
Það var náttúrlega ægilega gaman að fylgjast með flugeldunum og gleðinni hjá Camillu yfir stjörnuljósunum sem Gerður dældi í hana! Ég veit ekki hvor naut sín betur, Gerður eða Camilla. Báðar brostu hringinn þegar nýtt ljós birtist! Stóri kjúllinn (kalkúnninn) var náttúrlega alveg hrrrrrriiikalega góður og allt sem honum fylgdi, þar meðtalinn forréttur og eftirréttur!
Glataði hlutinn var aftur sá að Jón Einar sat fastur yfir 14 klukkutíma prófi (ójá -prófi -MBA námið er svo fjölskylduvænt!!!) fram til klukkan 23 á gamlársdag/-kvöld. Þannig að hann var einn heima elsku kallinn og missti af allri gleðinni. Við erum sem sagt ákveðin að þetta verði síðustu áramótin sem við verðum ekki öll saman... Það er töluvert skemmtilegra að eyða þeim með öllum sem manni þykir vænt um!

Janúar:
Þá koma öll afmælin!!
Það eru sem sagt eftirtaldir dagar eru uppteknir hjá okkur -svona fyrir ykkur sem ætlið að eiga börn í janúar, vinsamlega velja aðra daga!

3, nafna mín frænka hans Jóns Einars
4, Erna frænka
7, Sara frænka
9, Sibba hans Ottós
11, Pabbi og Andri
17, Anna Lilja
18, Ingi hennar Lísu frænku
19, Óski, Gunni og Hrafnhildur
20, ég
23, Egill hennar Hildar
25, Hrönn og Marý
28, Hildur hennar Sibbu

Telst þetta nú ekki bara nokkuð bissí mánuður? 16 manns á 12 dögum, já og 12 dagar af 31 uppteknir!

En nú í janúar hefur nú meira gerst en bara afmæli... Það er búið að fara út í snjóinn að leika með Camillu við mikinn fögnuð. Stuttu síðar fór ég nú reyndar og fjárfesti í stærri snjóþotu fyrir hana og við fórum þá bara öll í göngutúr, litla Auður á litlu snjóþotunni og Camilla á nýrri og ívið stærri! Ég veit ekki hver hafði mest gaman að þeim göngutúr, við foreldrarnir sem brostum hringinn þegar við sáum hvað þær systur höfðu óskaplega gaman af því að vera dregnar fram og til baka á þotunum.

Við fórum líka með Camillu í fyrsta sinn í leikhús á sunnudaginn var. Það var óskaplega gaman, hún var eins og ljós allan tímann í fanginu á pabba sínum og fylgdist með öllu sem gerðist á sviðinu. -Spurði reyndar öðru hvoru hvar Mikki refur væri!! En hann er víst ekki í "Skilaboðaskjóðunni". Ljómandi skemmtun sem ég mæli hiklaust með!

Annars er nú lífið bara leikfimi og lokaritgerð hjá mér þessa dagana. Dagarnir fara í það að hafa ofan af fyrir Auði sem tók einmitt 5 skref í dag! Þetta er allt að koma hjá henni, bara dagaspursmál hvenær hún sleppir alveg takinu og fer að labba fyrir alvöru! Þegar ungarnir eru síðan sofnaðir tekur við lokaritgerðin sem ég er að hripa niður í þeirri von að geta skilað fyrstu skil í mars. Við sjáum hvernig það gengur!!

Eitt gullkorn svona að lokum! Ég var að lesa fyrir Camillu um daginn alveg hrútleiðinlega bók sem henni þykir óskaplega skemmtileg!! Á einni opnunni var mynd af geit og kind á annarri blaðsíðunni og af lambi og kiðlingi á hinni. Ég fór að útskýra að lambið væri litla barnið sem kindin ætti og kiðlingurinn tilheyrði þá geitinni þegar Camilla tilkynnir mér eftirfarandi:
"ég ekki geit!"
"nei nei" segi ég, "þú ert ekki geit, þú ert lítil...." (Hér átti hún að bæta inní orðinu "stelpa")...
smá þögn og svo kom tilkynningin aftur:
"Ég ekki geit"
"nei nei", segi ég aftur, "þú ert lítil"
Löng þögn í þetta skiptið
"Camilludýr" kom þá!!
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að mamman þurfti að laga sokkana sína þarna smá stund!!!

| |

Berglind
Ella Maja
Hallveig
Júlíana

Átakið -er í lööööngu fríi

Previous posts

Archives

Links

Powered by Blogger
and Blogger Templates Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com